Skiptum á þrotabúi Bergsins ehf. lauk hinn 6. júní síðastliðinn en samkvæmt tilkynningu sem birtist í Lögbirtingablaðinu í gær fundust engar eignir í búinu og var því skiptum lokið án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur sem námu samtals tæpum 3,8 milljörðum íslenskra króna.

Bergið var eignarhaldsfélag í eigu Steinþórs Jónssonar, Sverris Sverrissonar, Jónmundar Guðmarssonar, Friðriks Inga Friðrikssonar og Friðriks Smára Eiríkssonar auk nokkurra annarra.  Félagið keypti hlut í Icebank, áður Sparisjóðabankanum, og greiddi einn þriðja af kaupverðinu og fékk seljendalán frá Byr og Spron fyrir afganginum.

Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir Steinþóri Jónssyni að þær háu kröfur, sem lýst er í búið, séu rangar og langt fyrir ofan það sem rétt hafi verið. Hann segir að eigið fé félagsins hafi verið tæpur milljarður og skuldir numið um 1,9 milljörðum.