Alls voru 389 nýjar farþegavélar pantaðar hjá stærstu flugvélaframleiðendum heims í júlí en svo mikinn fjölda pantana má fyrst og fremst rekja til árlegu flugsýningarinnar í Farnborough á Englandi þar sem mörg af helstu flugfélögum heims tilkynna oft um stórar pantanir.

Það var bandaríska flugfélagið United Airnines sem átti flestar pantanir í júlí þegar félagið gekk frá pöntun á 150 Boeing 737 Max vélum. Þá pantaði bandaríska félagið Air Lease 75 Boeing 737 Max vélar og ástralska flugfélagið Virgin Australia 23 vélar af sömu gerð. Alls voru 260 vélar pantaðar hjá Boeing í júlímánuði.

Mánuðurinn var ekki jafn góður fyrir evrópska flugvélaframleiðandann Airbus en stærsta pöntun félagsins kom frá rússneska flugfélaginu Utair, sem pantaði 20 Airbus A321 vélar. Alls voru 49 vélar pantaðar frá Airbus í júlí og 31 vél frá kanadíska framleiðandanum Bombardier.

Af fyrrnefndum pöntunum voru um 320 vélar af minni gerð farþegaflugvéla (e. narrowbody), en þar er um að ræða vélar með einum gangi. Flestar voru þær úr 737 línu Boeing eða um 250. Þá voru tæplega 30 vélar pantaðar úr A320 línunni hjá Airbus og um 25 CSeries vélar frá kínverska framleiðandanum Comac.

Úr flokki breiðþotna (e. widebody), þ.e. vélar sem eru með tvo ganga, voru pantaðar rétt rúmlega 20 Airbus A330 vélar en aðeins sjö Boeing 777 vélar.

Til gaman má geta þess að hjá stærstu flugvélaframleiðendum heims bíða nú um 10.200 pantanir á nýjum flugvélum.