Það er ekki heiglum hent að ætla sér að bera skattbyrði einstaklinga á Íslandi saman við önnur Norðurlönd enda skattkerfin um margt ákaflega ólík. Þó má í grófum dráttum fullyrða að þar standi fleiri undir tekjuskattinum en hér á Íslandi.

Ástæðan er fyrst og fremst sú að skattleysismörk eru hlutfallslega hærri á Íslandi sem aftur þýðir að framlag tekjulægri hópa til reksturs ríkisins er mun minna hér en á hinum Norðurlöndunum.

Því hefur stundum verið fleygt fram að um einn þriðji hluti skattgreiðenda á Íslandi greiði nánast engan skatt á meðan hinir tveir þriðju standi undir honum öllum. Þótt það flæki aðeins málin að fólk greiðir bæði útsvar og síðan tekjuskatt til ríkisins má samt að miklu leyti færa það til sanns vegar.

Tölurnar tala hér sínu máli: í nýjasta hefti Tíundar kemur fram að í ár töldu um 250 þúsund Íslendingar fram tekjur til útsvars en þeir sem greiddu ríkinu almennan tekjuskatt voru á hinn bóginn aðeins liðlega 151 þúsund talsins eða einungis rétt liðlega 60%.

Fjórir af hverjum tíu hafa þá verið með það litlar tekjur að þeir greiddu engan tekjuskatt til ríkisins en fullyrða má að þetta hlutfall sé miklum mun lægra í Skandinavíu. Rétt er þó að taka fram að hér á Íslandi telja menn fram til skatts frá 16 ára aldri og ætla má að nokkur hluti af umræddum 40% séu ungmenni sem vinna með skóla.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu blaðsins undrir liðnum tölublöð hér að ofan.