Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hringdi í Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í gær sunnudag til að láta hana vita að gríska ríkisstjórnin væri orðin uppiskroppa með fé, að því er segir í frétt þýska blaðsins Bild. Þýsk stjórnvöld hafa aðeins staðfest að símtalið átti sér stað, en hafa ekki viljað tjá sig um efni þess.

Samkvæmt könnun, sem Reuters lét gera meðal miðlara á peningamörkuðum, þá er 40% líkur á því að Grikkland hverfi úr evrusamstarfinu. Aðeins rétt rúmur helmingur þeirra telur landið geta haldið evrunni áfram þótt greiðslufall verði á skuldbindingum gríska ríkisins.

Gerðar voru breytingar á samningateymi Grikklands um helgina og mun Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra landsins, ekki taka jafn virkan þátt í viðræðunum framvegis og verið hefur. Mun þetta hafa verið gert eftir að í ljós kom hversu einangraður hann var á fundi fjármálaráðherra evruríkjanna í Riga í Lettlandi á föstudag.

Markaðir tóku þessum breytingum vel og lækkaði ávöxtunarkrafan á þriggja ára grísk skuldabréf um 250 punkta niður í 23,55%. Fyrr um daginn hafði krafan verið 26,87%.