Fyrirtækið Raförninn var stofnað í maí 1984 en það er ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki á sviði læknisfræðilegrar myndgreiningartækni. Einn af stofnendunum var Smári Kristinsson tæknifræðingur sem hefur verið framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá upphafi. Í fyrstu var þetta eins manns fyrirtæki í einu herbergi, með lítil umsvif unnin í hjáverkum með annarri vinnu. Fyrsta stóra verkefni Rafarnarins var undirbúningur að rekstri röntgendeildar Krabbameinsfélags Íslands. Það verkefni hófst 1985.

Að sögn Smára hefur fyrirtækið frá upphafi boðið rekstraraðilum heildræna tækniþjónustu sem nær til allrar tækni sem þarf til læknisfræðilegrar myndgreiningar á hverjum tíma og í samræmi við aukin umsvif hefur verið ráðið starfsfólk með víðtæka þekkingu og reynslu innan þeirra sviða sem fyrirtækið starfar á.

13 starfsmenn

Nú starfa 13 manns hjá Raferninum og í hópnum eru tæknimenn, geislafræðingar og bókhaldari. Að sögn Smára gefur langtíma samvinna við ýmsa sérfræðinga Raferninum mögulegt að taka að sér hverskonar ráðgjafarverkefni innan læknisfræðilegrar myndgreiningar. Mikið er lagt upp úr símenntun og starfsmenn sækja bæði innlend og erlend námskeið á sínum sérsviðum. Einn starfsmaður er að ljúka meistaranámi og tveir eru langt komnir með dokorsnám. Eigendur Rafarnarins eru tvenn hjón; Smári Kristinsson og Kolbrún Kjartansdóttir og Sigurður Rúnar Ívarsson og Sigurborg Sigurðardóttir.

"Burðarás fyrirtækisins er þjónusta við myndgreiningardeildir á Íslandi og Raförninn kemur að einhverju leyti við sögu á flestum stöðum þar sem röntgenmyndir eru teknar hérlendis," sagði Smári. Hann benti á að stafræn tæknivæðing myndgreiningardeilda á Íslandi hófst árið 2001, þegar röntgendeild Hjartaverndar, sem var fyrsta alstafræna myndgreiningareiningin á Íslandi, var opnuð. Öll tækniráðgjöf og umsjón með uppsetningu var á hendi Rafarnarins.

Talsverð verkefni erlendis

Rafernir hafa einnig unnið verkefni fyrir ýmsa aðila erlendis og taldi Smári að um 30% af tekjum félagsins kæmi úr erlendum verkefnum. Sem dæmi má nefna Riverdale Radiology í Maryland fylki í Bandaríkjunum, Princess Margaret Hospital á Dominica og samstarf við PATH í MVI (Malaria Vaccine Initiative). Verkefnið sem unnið var fyrir PATH snerist um að koma upp stafrænni myndgreiningu á 10 stöðum frá austri til vesturs í Afríku, nálægt miðbaug. Búnaðinn á að nota í vísindaverkefni þar sem verið er að meta lengst komna bóluefnið gegn malaríu, þar sem góðar lungnamyndir af börnum eru nauðsynlegar til nákvæmrar sjúkdómsgreiningar.

Árið 2006 stofnaði Raförninn, ásamt Phantom Laboratory í Bandaríkjunum og nokkrum einstaklingum, fyrirtækið Image Owl Inc. sem þróar og selur hugbúnað til gæðamælinga á myndgreiningarbúnaði. Að sögn Smára fer hugbúnaðarþróun fyrir Image Owl að mestu fram hjá Raferninum en í hluthafahópnum eru einstaklingar með mikla reynslu í myndgreiningartækni hugbúnaðarþróun og markaðssetningu.

Mikil áhersla á þjónustusamninga

Allt frá árinu 1986 hefur Raförninn boðið upp á samninga um (eitt kerfi einn samningur) tækniþjónustu. Fyrsti aðilinn sem gerði slíkan samning við fyrirtækið var Krabbameinsfélag Íslands, vegna tækniþjónustu við brjóstaröntgengreiningu, en í dag eru yfir tuttugu rekstraraðilar með þjónustusamninga við Raförninn. Umfang þjónustunnar er mjög mismunandi eftir þörfum viðskiptavina en lögð er áhersla á að bjóða þjónustu við allan tæknibúnað á myndgreiningardeildum.

Eitt af þeim forritum sem hönnuð hafa verið hjá Raferninum er gæðastýringarkerfið Quality Control Center sem viðskiptavinir geta fengið aðgang að til að skrá reglubundnar mælingar og stýra aðgangi að niðurstöðunum. Þannig geta t.d. opinberir eftirlitsaðilar fengið rauntímaaðgang að gögnunum sem Smári segir mjög mikilvægt.

Um 40% þeirra myndgreiningarverkefna sem unnin eru innan heilbrigðiskerfisins eru gerð af einkaaðilum. Talsverð þróunarvinna hefur átt sér stað á þessu sviði hér innanlands með fyrirtækið Raförninn í broddi fylkingar eins og kemur fram í samtali Viðskiptablaðsins við Smára Kristinsson framkvæmdastjóra.