Tæplega 40% íbúða á landinu öllu seldust yfir ásettu verði í janúar síðastliðnum, þar af seldust um 44,9% íbúða á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði. Aldrei hefur það hlutfall mælst hærra, að því er kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur lengst á síðustu mánuðum en í janúar síðastliðnum mældist hann 43,9 dagar samanborið við 40,8 daga í desember og 36,8 daga í október.

Sjá einnig: Vísitala íbúðaverðs hækkað um 22,5%

Viðskipti með íbúðarhúsnæði dróst verulega saman á milli mánaða og voru aðeins 724 á landinu öllu í janúar 2022 sem er 32% minna en í desember síðastliðnum. Tekið er þó fram að kaupsamningum fækki venjulega í janúarmánuði og því er árstíðaleiðréttur samdráttur einungis 11,2%.

Framboð íbúða til sölu hélst nokkuð stöðugt síðasta mánuðinn eftir mikinn samdrátt í nær tvö ár þar á undan. Í byrjun mars voru 983 íbúðir til sölu á landinu öllu samanborið við 1.017 í byrjun febrúar. Í lok febrúar fór framboðið í fyrsta sinn undir 1.000 íbúðir en í mars í fyrra fór það í fyrsta sinn niður fyrir 2.000 íbúðir. „Framboð íbúða er því enn með lægsta móti,“ segir í skýrslunni.

Stofnunin tekur þó fram að framboðstölur feli í sér ofmat þar sem í óformlegri greiningu kom í ljós að rúmlega þriðjungur allra íbúða sem auglýstar voru til sölu á höfuðborgarsvæðinu voru komnar í söluferli og því í raun ekki til sölu nema ef skildi að fyrirhuguð kaup detti í gegn.

Mynd tekin úr mánaðarskýrslu HMS.