Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest 45 milljón króna sekt á SORPU bs. vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu.

Í desember síðastliðnum sektaði Samkeppniseftirlitið SORPU bs. um 45 milljónir króna fyrir brot á samkeppnislögum. Samkvæmt ákvörðuninni braut SORPA bs. (sem er byggðasamlag sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu) gegn samkeppnislögum með því að misnota markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir flokkun og meðhöndlun úrgangs. Þetta gerði SORPA með því að veita eigendum sínum, þ.e. sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, og Sorpstöð Suðurlands bs. hærri afslætti en öðrum viðskiptavinum, s.s. sorphirðufyrirtækjum, jafnvel þó fyrirtækin kæmu með meira magn af sorpi en sveitarfélögin í móttökustöð SORPU í Gufunesi.

SORPA kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist aðallega ógildingar ákvörðunarinnar en til vara að sekt vegna brotsins yrði felld niður eða lækkuð verulega. Byggði fyrirtækið m.a. á því að starfsemi opinberra fyrirtækja eins og SORPU félli ekki undir samkeppnislög.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur nú staðfest ákvörðun Samkeppniseftirlitsins bæði hvað varðar misnotkun SORPU á markaðsráðandi stöðu og stjórnvaldssekt vegna brotsins.