Um 46 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í janúar í ár samkvæmt talningum Ferðamálastofu eða um 13.400 fleiri en í janúar á síðasta ári. Um er að ræða 40,1% fjölgun ferðamanna í janúar milli ára.

Bretar voru langfjölmennastir eða 35,5% af heildarfjölda en í öðru sæti voru Bandaríkjamenn, 14,5% af heild. Þar á eftir komu Þjóðverjar (5,0%), Norðmenn (4,2%), Frakkar (4,2%), Danir (4,1%), Japanir (3,8%), Svíar (3,8%), Kínverjar (2,9%) og Kanadamenn (2,2%). Samtals voru þessar tíu þjóðir áttatíu prósent ferðamanna í janúar.

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bretum langmest milli ára en 6.545 fleiri Bretar komu í janúar í ár en í fyrra. Bandaríkjamenn voru 1.716 fleiri, Kanadamenn 616 fleiri og Frakkar 600 fleiri.