Á árinu 2016 fjölgaði stöðugildum hjá hinu opinbera um rúmlega 500 en á sama tíma sköpuðust 6.400 ný störf í einkageiranum. Á tímabilinu fækkaði atvinnulausum um 1.700 en einnig jókst atvinnuþátttaka en einstaklingum utan vinnumarkaðar fækkaði um 1.800 milli ára.

Er um að ræða 1,5% aukningu hlutfallslega hjá hinu opinbera meðan aukningin í einkageiranum nam 4,3% svo vægi hins opinbera minnkaði milli ára.

Stuðningsstuðull atvinnulífsins hæstur eftir hrun

Þetta kemur fram í tölum frá Viðskiptaráði, sem hafa frá árinu 2011 birt svokallaðann stuðningsstuðul atvinnulífsins, sem gefa á vísbendingu um jafnvægið á milli umsvifa einkageirans og hagkerfisins í heild.

Stuðningsstuðullinn, sem skilgreindur er sem hlutfallið á milli starfsfólks í einkageira og annarra íbúa landsins, lækkaði á síðasta ári um 6% og er hann nú í 1,17.

Hefur hann ekki verið lægri frá aldamótum og endurspeglar hann þannig sterka stöðu íslenska hagkerfisins, en hann fór hins vegar hæst í 1,45  í kjölfar hrunsins, þegar störfum í einkageiranum fækkaði verulega.

Viðskiptaráð segir stuðulinn gefa vísbendingu um hvort jafnvægi sé á milli umsvifa einkageirans og hagkerfisins í heild og telur það mikilvægt að stjórnvöld vinni að því að halda honum lágum þar sem sterkur einkageiri er undirstaða velferðar og bættra lífskjara.