Gert er ráð fyrir allt að 500 nýjum íbúðum og 15 þúsund fermetrum fyrir atvinnuhúsnæði á Mýrargötu-slippasvæðinu í Reykjavík í lokatillögu að nýju rammaskipulagi svæðisins sem kynnt verður á opnum fundi í BÚR húsinu við Grandagarð í dag. Tillagan er afrakstur umfangsmikils samráðsferlis sem hófst fyrir rúmu ári með hagsmunaaðilum og almenningi.

Tillagan er unnin fyrir Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir af ráðgjafahópi sem í eru Björn Ólafs arkitekt, Hönnun hf., Landmótun ehf. og VA arkitektar ehf. Megináherslan er lögð á að skapa heilsteypt hverfi þar sem gott er að búa í góðum tengslum við höfnina og miðborgina.

Til að ná fram þessum markmiðum er lagt til að gegnumakstursumferð verði lögð í stokk undir Mýrargötu og að þrír meginásar úr gömlu byggðinni, göturnar Ægisgata, Bræðraborgarstígur og Seljavegur, verði framlengdir niður að sjó.

Alls er gert ráð fyrir um 500 nýjum íbúðum og um 15.000 m²af atvinnuhúsnæði á svæðinu í heild og 1.000-1.400 nýjum bílastæðum, þar af tveimur af hverjum þremur í bílastæðahúsum. Gert er ráð fyrir samfelldri byggð frá Ægisgarði að Grandagarði norðan nýrrar Mýrargötu. Næst höfninni er gert ráð fyrir atvinnustarfsemi og í byggðunum fyrir sunnan er gert ráð fyrir íbúðabyggð með möguleika á atvinnustarfsemi á jarðhæðum.

Reiknað er með 3-5 hæða byggð að jafnaði og áhersla lögð á að útsýni yfir höfnina haldi sér en á ákveðnum stöðum yrði leyfð allt að 6-7 hæða byggð. Byggðin í brekkunni niður að Mýrargötu er nokkuð heilleg og þar er ekki gert ráð fyrir breytingum á byggðamynstrinu. Lagt er til að styrkja götumyndir með aðfluttum húsum og nýjum byggingum á auðum lóðum. Meðal annars er reiknað með um 50 nýjum íbúðum á Nýlendugötureit og á Héðinsreit er gert ráð fyrir um 125 nýjum íbúðum fyrir aldraða og hjúkrunardeild. Á Ellingsenreit, í nýrri byggingu á Ellingsenlóð og í fyrrum húsi Hraðfrystistöðvarinnar í Reykjavík, verða um 140 nýjar íbúðir og allt að 200 nýjar íbúðir á slippareitnum.

Áætlaður framkvæmdarkostnaður við að gera svæðið klárt fyrir byggingarframkvæmdir er tæpir tveir milljarðar króna, samkvæmt áætlun ráðgjafahópsins. Er áætlað að rif á húsum og dráttarbrautum og hreinsun á mengun í jarðvegi kosti um 256 milljónir króna, landgerð og formun landkants kosti 239 milljónir. Áætlað er að gatnagerð, þ.á.m. þriggja akreina stokkur undir Mýrargötu, kosti tæpan milljarð. Útgjöld vegna yfirborðsfrágangs og umhverfis eru kostnaðarmetin á 224 milljónir og kostnaður við bílastæði í húsi er áætlaður 300 milljónir króna.

Áætlaður framkvæmdarkostnaður við að gera svæðið klárt fyrir byggingarframkvæmdir er tæpir tveir milljarðar króna, samkvæmt áætlun ráðgjafahópsins. Er áætlað að rif á húsum og dráttarbrautum og hreinsun á mengun í jarðvegi kosti um 256 milljónir króna, landgerð og formun landkants kosti 239 milljónir. Áætlað er að gatnagerð, þ.á.m. þriggja akreina stokkur undir Mýrargötu, kosti tæpan milljarð. Útgjöld vegna yfirborðsfrágangs og umhverfis eru kostnaðarmetin á 224 milljónir og kostnaður við bílastæði í húsi er áætlaður 300 milljónir króna.