Sveitarfélögin í landinu áttu í lok síðasta árs tæplega 5.000 leiguíbúðir. Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu Varasjóðs húsnæðismála sem fjallað er um á vef velferðarráðuneytisins.

Sjö sveitarfélög áforma að fjölga leiguíbúðum í náinni framtíð, samtals um 131 íbúð. Mestu munar um áform Félagsbústaða hf. í Reykjavík sem ætla að kaupa eða byggja samtals 100 íbúðir. Þrjú önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu  ætla að fjölga íbúðum um samtals 21 íbúð, þ.e. Kópavogur, Garðabær og Mosfellsbær og fjögur sveitarfélög á landsbyggðinni ætla að fjölga íbúðum samtals um 10.

Meðalbiðtími fólks eftir félagslegu leiguhúsnæði á landsvísu er rúmlega tvö ár, eða 26,6 mánuðir. Lengstur meðalbiðtími eftir leiguíbúð árið 2014 var 30 mánuðir hjá Kópavogsbæ og Akraneskaupstað, 29 mánuðir hjá Reykjavíkurborg og 24 mánuðir hjá Hveragerðisbæ.

Þorri umsækjenda um félagslegar leiguíbúðir eru í Reykjavík og sveitarfélögunum umhverfis höfuðborgina, þ.e. í „Kraganum.“ Um 75% umsóknanna eru af þessu svæði. Umsóknum um félagslegt leiguhúsnæði á landsvísu fækkaði um 10% milli áranna 2013 og 2014 og fólki á biðlistum fækkaði um 6% á landsvísu. Yfir 80% umsækjenda á biðlistum eru á höfuðborgarsvæðinu.