Um 5.000 ótollafgreiddar nýjar bifreiðar eru í landinu að því er kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpi því sem nú hefur verið samþykkt um um endurgreiðslu opinberra gjalda af útfluttum ökutækjum.

Samkvæmt lögunum verður endurgreiddur hluti virðisaukaskatts og vörugjalds af notuðum vélknúnum ökutækjum sem eru seld eða flutt úr landi fram til 1. apríl 2009. Endurgreiðslan getur ekki numið hærri upphæð en 2 milljónir króna fyrir hvert ökutæki.

Með lögunum er verið að greiða fyrir sölu notaðra bifreiða úr landi og þannig liðkað fyrir sölu nýrra bíla. Með þessu móti verður líklega aflað gjaldeyris fyrir þjóðarbúið segir í Morgunkorni Glitnis.

Fjármálaráðuneytið reiknar með því að kostnaður ríkissjóðs vegna laganna gæti orðið nokkur. 2 m.kr. hámarkið sem sett er á hvert ökutæki takmarka kostnaðinn hins vegar umtalsvert. Einnig ætti útflutningur notaðra ökutækja að liðka fyrir sölu þeirra bifreiða sem fluttar hafa verið til landsins, en hafa ekki verið tollafgreiddar. Tekjur ríkissjóðs af þessum innflutningi verða þannig meiri en ella hefði orðið.