Ný skýrsla um arðsemi hótelgeirans á Íslandi var kynnt á fundi KPMG í fyrradag. Í skýrslunni kemur fram að afkoma hótelrekstraraðila er misgóð eftir staðsetningu og að markviss uppbygging sé mikilvæg til að stuðla að betri arðsemi í greininni.

Benedikt K. Magnússon, sviðsstjóri ráðgjafasviðs KPMG, kynnti skýrsluna. Hann telur að nú sé verið að fjárfesta of mikið í uppbyggingu gistingar miðað við spár um fjölgun ferðamanna. Það sem helst vekur athygli í skýrslunni er að afkoma hótela á höfuðborgarsvæðinu er lök þrátt fyrir að besta nýting hótelherbergja sé einmitt á höfuðborgarsvæðinu.

„Aðeins 40% þeirra hótelrekstraraðila sem eru með meginstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu skiluðu hagnaði árið 2012 en 70% hótelrekstraraðila á landsbyggðinni skiluðu hagnaði,“ segir í skýrslunni. „Árið 2012 voru 50% hótela á höfuðborgarsvæðinu með jákvætt eigið fé samanborið við 57% á landsbyggðinni.“

Best á Suðurlandi

Á landsbyggðinni eru það hótel á Suðurlandi sem að jafnaði skila mestum rekstrarhagnaði. „Þar hefur EBIT á hvert herbergi vaxið úr 475.000 króna árið 2009 í 800.000 árið 2012. Meðalafkoma rekstraraðila hótela á höfuðborgarsvæðinu var slök 2009-2012 en tók stökk árið 2012 þegar heilsársnýting jókst verulega.“ Í skýrslunni kemur fram að tæplega 80% rekstraraðila hótela á höfuðborgarsvæðinu leigi húsnæði undir starfsemi sína en þessu er þveröfugt farið á landsbyggðinni. Þar eiga tæp 80% rekstraraðilanna húsnæðið sem hótelið er í. Í úttektinni segir að velta megi fyrir sér hvort hár húsnæðiskostnaður haldi niðri arðsemi á höfuðborgarsvæðinu. Þá er líkum að því leitt að verðsamkeppni sé meiri á höfuðborgarsvæðinu sem valdi lakari afkomu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .