Mikill áhugi hefur verið á þeim veflausnum sem Nýi Glitnir kynnti í byrjun janúar til þess að auðvelda heimilum að setja sér markmið í fjármálum.

Um 6000 þúsund manns hafa nýtt sér þessa þjónustu sem bankinn býður almenningi og viðskiptavinum sínum á netinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýja Glitni en um er að ræða þrjár veftengdar lausnir ásamt svokölluðum fjármálaviðtölum sem ætlað að gera einstaklingum og heimilum auðveldara að skipuleggja fjármál sín.

Fram kemur að á heimasíðu bankans geta einstaklingar lagt mat á stöðu fjármála sinna með einföldu stöðumati. Þar er með einföldum hætti hægt að slá inn áætlaðar tekjur og gjöld heimilisins í einfalda reiknivél. Þannig má sjá hver helstu útgjöld eru. Um leið er hægt að meta hvort hægt sé að draga úr útgjöldum og með hvaða hætti.

Þá geta allir nálgast heimilisbókhald á heimasíðu bankans en það gerir einstaklingum kleift að gera áætlanir, setja sér markmið og bera saman við raunveruleg útgjöld. Niðurstöður á helstu fjármálatölum eru settar fram með myndrænum hætti. Heimilisbókhald Glitnis er í excel formi og er öllum að kostnaðarlausu.

Í tilkynningunni kemur fram að í netbanka Glitnis geta viðskiptavinir sett sér sparnaðarmarkmið fyrir hvern innlánsreikning og fylgst með á einfaldan hátt hvernig gengur að ná settum markmiðum. Upplýsingastika í netbankanum sýnir á myndrænan hátt hvernig gengur að ná settu markmiði.

„Viðskiptavinir Nýja Glitnis hafa tekið þessum verkfærum sem við kynntum í byrjun janúar fagnandi,“ segir Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Glitnis í tilkynningunni.

„Við finnum fyrir miklum áhuga á öllu sem snertir endurskipulagningu í fjármálum heimilanna. Starfsmenn Glitnis hafa á síðustu mánuðum unnið hörðum höndum að skilmálabreytingum fyrir viðskiptavini bankans og öðrum úrlausnum. Þá hefur einnig orðið sprenging í ásókn í fjármálaviðtöl hjá okkar fjármálaráðgjöfum. Þær lausnir um markmiðasetningu fyrir fjármál heimilanna og heimilisbókhaldið á netinu er hluti af því að aðstoða okkar viðskiptavini að halda utan um fjármálin.”