Lífeyrissjóðir landsins eiga með beinum hætti 63,7% hluta af öllum íbúðabréfum Íbúðalánasjóðs. Til viðbótar við beint eignarhald má slá því föstu að lífeyrissjóðir eigi enn meira í gegnum verðbréfa- og fjárfestingarsjóði. Verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir áttu í lok mars um 15,7% íbúðabréfa, að nafnvirði. Allar tölur og hlutfallstölur miðast við nafnverð útgefinna íbúðabréfa, HFF, sem samtals nema 682,4 milljörðum að nafnvirði. Viðskiptablaðið hefur á undanförnum vikum fjallað um stöðu Íbúðalánasjóðs. Tilefnið er skýrsla starfshóps um framtíðarhorfur og hlutverk sjóðsins sem skilaði af sér um miðjan síðasta mánuð.

Samfylkingin, Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð lýstu því öll yfir í þarsíðasta tölublaði fyrir tæpum hálfum mánuði að lausn á uppgreiðsluvanda sjóðsins, sem kristallast í því að skuldir Íbúðalánasjóðs gagnvart skuldabréfaeigendum eru óuppgreiðanlegar en stærstur hluti skulda lántakenda er uppgreiðanlegur, fáist ekki nema með samningum við lánardrottna, sem að stærstum hluta eru lífeyrissjóðir.

„Uppgreiðsluvandi Íbúðalánasjóðs verður ekki leystur án samninga við alla helstu lánardrottna sjóðsins. Markmið þeirra samninga er að lágmarka þann skaða sem ríkissjóður hefur orðið fyrir,“ sagði til að mynda í svari Sjálfstæðisflokks við spurningum Viðskiptablaðsins. Til þessa hefur ekkert reynt á samningsleið við kröfuhafa, í það minnsta hefur ekki komið til hennarmeð formlegum hætti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.