OECD birti á dögunum tölur um rekstrarkostnað lífeyriskerfa í nokkrum löndum árið á síðasta ári. Þar kemur fram að á Íslandi hafi hann svarað til 0,24% af meðaleignum sjóðanna. Starfsmenn voru þá að meðaltali 250. Fullyrt er í frétt á vef Landssamtaka lífeyrissjóða að rekstrarkostnaður íslenskra lífeyrissjóða sé með því lægsta sem þekkist.

Í fréttinni segir að þetta sé með öðrum orðum hinn eiginlegi rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna, það er allur kostnaður við reksturinn að undanskildum fjárfestingargjöldum sem í fréttinni segir að sé óhjákvæmilegur kostnaður sem fylgi því að vera fjárfestir. Þar segir jafnframt að alþjóðleg venja sé að telja ekki fjárfestingargjöld verðbréfasjóða til rekstrarkostnaðar. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður lífeyrissjóða á Íslandi var tæplega 6,4 milljarðar króna árið 2016 samkvæmt samantekt Fjármálaeftirlitsins. Samanlagðar eignir sjóðanna voru um 3.300 milljarðar króna í árslok 2016.