Atvinnuleysið jókst um 0,7 prósentustig milli ára í janúar og nam það nú fyrir um mánuði 3,4% af því er fram kemur í nýjum tölum Hagstofu Íslands . Voru atvinnulausir rétt um 7 þúsund í janúar samkvæmt árstíðarleiðréttum tölum, en án árstíðarleiðréttingar voru það 7.400 manns og 3,6%.

Atvinnuþátttakan var 81% árstíðarleiðrétt en án hennar var hún 80,7%, en hlutfall starfandi var svo 78% árstíðarleiðrétt, en 77,8% án árstíðarleiðréttingarinnar. Þetta þýðir að 209 þúsund manns á aldrinum 16 til 74 ára hafi verið á vinnumarkaði í janúar síðastliðnum en þar af 201,5 þúsund verið starfandi.

Árstíðarleiðrétt leitni atvinnuleysis síðustu sex mánaða heldur áfram að vera stöðug, en leitni hlutfalls starfandi stígur lítið eitt upp á við, eða úr 77,6% í ágúst í 77,9% í janúar. Einnig má sjá örlítinn stíganda upp á við í hlutfalli atvinnuþátttöku yfir sama tímbil, eða um 0,2 prósentustig.