Alls fóru um 70 milljónir farþega um Heathrow flugvöll í Lundúnum á síðasta ári, en aldrei fyrr hafa jafn margir farþegar farið um þennan annasamasta flugvöll Evrópu.

Samkvæmt vef BBC fjölgaði farþegum um flugvöllinn um tæpt prósent á milli ára en þar munar mestu um aukinn fjölda farþega til og frá Norður Ameríku (fjölgun um 3,2%) auk þess sem flogið var til og frá nýjum áfangastöðum í Asíu og Suður Ameríku.

Flugumferð var þó svipuð á milli ára í fyrra, í flugvélum talið, en á móti auknum fjölda farþega hefur dregið úr tíðni fraktflutningavéla. Aukinn fjölda farþega má því helst rekja til betri sætanýtingar auk þess sem notkun stærri flugvéla hefur aukist, þá helst Airbus A380. Í raun má segja að hver vél hafi flutt um 2% fleiri farþega að meðaltali en árið áður, sé miðað við fjölda flugvéla.

Mesta einstaka fjölgunin á farþegum var til Brasilíu en farþegum sem flugu til Brasilíu fjölgaði um 21,6%. Þar ræður mestu um nýja áfangastaði. Umferð til austurhluta Asíu jókst um 6,2% á milli ára í fyrra, en rétt er að hafa í huga að árið 2011 varð töluverður samdráttur í fjölda farþega þaðan vegna hamfaranna í Japan.

Þá vekur athygli að farþegum frá Portúgal, Ítalíu, Grikklandi og Spáni fækkaði um 4,5%, en segja má að þetta séu þau ríki sem hvað verst standa efnahagslega innan evrusvæðisins.

Fram kemur í frétt BBC, og um þetta hefur verið fjallað áður, að Heathrow flugvöllur ræður við um 2-4 milljónir farþega til viðbótar á ársgrundvelli miðað við innviði flugvallarins. Hins vegar ræður hann ekki við aukinn fjölda flugvéla um völlinn án þess að reisa nýja álmu (e. Terminal) og leggja þriðju flugbrautina, en um það er nú deilt í Bretlandi.