„Þetta er auðvitað farið að valda miklum óþægindum, bæði fyrir kaupendur og seljendur,“ segir Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala, í samtali við Fréttablaðið .

Þar er greint frá því að kostnaður kaupenda og seljenda fasteigna á höfuðborgarsvæðinu geti verið verulegur vegna verkfalls félagsmanna Bandalags háskólamanna hjá Sýslumanninum í Reykjavík. Þannig fáist lán ekki afgreidd og eignir séu ekki afhentar nema gegn íþyngjandi skilmálum um greiðslu seðlabankavaxta á meðan greiðslur tefjast.

Um 7.200 skjöl bíða þinglýsingar hjá sýslumanni og er líklegt að meirihluti þeirra tengist fasteignaviðskiptum. Fram kemur í Fréttablaðinu að dæmi séu um að fólk hafi lent í hremmingum í fasteignakaupum, svo sem vegna þess að standa uppi húsnæðislaust þegar það þarf að yfirgefa fyrra húsnæði á umsömdum tíma, en fær ekki nýja eign afhenta vegna verkfallsins.