Bandaríska ráðgjafarfyrirtækið CR Intrinsic Investors hefur samið við bandaríska fjármálaeftirlitið, SEC, um greiðslu 600 milljóna dala í sektir vegna innherjasvika. Jafngildir þetta um 75 milljörðum íslenskra króna og er hæsta sekt sem lögð hefur verið á bandarískt fyrirtæki vegna innherjasvika. Var greint frá samkomulaginu rétt í þessu á vefsíðu SEC .

Fyrirtækið er í eigu S.A.C. Capital Advisors, fyrirtækis sem rekur nokkra vogunarsjóði. Málið snýr að viðskiptum með verðbréf gefin út af tveimur lyfjafyrirtækjum, en þau voru að vinna saman að þróun nýs Alzheimerslyfs. Upplýsingar um niðurstöður tilraunanna láku til sjóðstjóra hjá CR Intrinsic Investors sem lét þær einnig berast til móðurfélagsins.

Þegar fréttir bárust svo af því að tilraunirnar hefðu ekki borið árangur féllu verðbréf lyfjafyrirtækjanna í verði. Vogunarsjóðirnir höfðu hins vegar selt mikið af þessum bréfum og annað hvort komist hjá tapi eða hagnast beinlýnis á sölunni. Nam ágóðinn um 275 milljónum dala.