Á síðasta ári voru 69% allra nýrra íbúðalána verðtryggð en 31% af þeim voru óverðtryggð. Undanfarin ár hafa fleiri heimili kosið að taka verðtryggð lán en óverðtryggð. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs .

Íbúðaviðskiptum hefur fjölgað

Íbúðaviðskiptum fjölgaði um 8% á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu átta mánuðum ársins og um 3% á landsvísu ef miðað er við sama tíma og í fyrra.

Hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur verið um 4,1% undanfarið ár ef miðað er við vísitölu íbúðarverðs sem gefin er út af Þjóðskrá Íslands. Um þessar mundir hækkar íbúðaverð meira á landsbyggðinni heldur á á höfuðborgarsvæðinu en þó ber að hafa í huga að uppsöfnuð hækkun frá 2012 er meiri á höfuðborgarsvæðinu.

Um 71% nýrra íbúðalána verðtryggð

Undanfarin ár hafa heimilin kosið að taka verðtryggð lán fram yfir óverðtryggð og síðan 2013 hafa verðtryggð lán verið um það bil 71% nýrra íbúðalána en óverðtryggð um 29%.

Um mitt ár 2015 var hlutdeild óverðtryggðra lána áberandi mikil sem má ef til vill setja í samhengi við þá staðreynd að um það leyti hækkuðu verðbólguvæntingar og vextir óverðtryggðra lána tímabundið.

Árið 2016 var hlutdeild verðtryggðra lána áberandi mikil en þá var verðbólga mjög lág og verðbólguvæntingar fóru lækkandi. Í febrúar síðastliðnum var hlutdeild verðtryggðra lána 67%.

Heimili á leigumarkaði um 28.000-31.000

Heimili á leigumarkaði telja því að meðaltali færri einstaklinga en heimili þeirra sem búa í eigin húsnæði.

Fjöldi þeirra heimila sem eru á leigumarkaði samsvarar fjölda allra íbúða í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði en ætla má að fjöldinn sé um 28.500-31.000 samkvæmt leigumarkaðsdeild Íbúðalánasjóðs.