Hagnaður Kjalarvogs, eignarhaldsfélag Blómavals og Ískrafts, nam 79,5 milljónum króna á liðnu ári að því er fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Rekstrartekjur tímabilsins námu 2.062 m.kr., vörunotkun 1.327 m.kr. og annar rekstrarkostnaður 573 m.kr. Í október fluttu höfuðstöðvar Blómavals úr Sigtúni, þar sem þær höfðu verið í áratugi, í glæsileg, ný húsakynni að Skútuvogi 14, Reykjavík. Enginn starfsmaður starfaði hjá félaginu á tímabilinu, en Húsasmiðjan hf. sá um daglegan rekstur.

Fjármagnsgjöld tímabilsins námu 66 milljónum en veltufé frá rekstri nam 100 milljónum króna

Í lok síðasta árs námu heildareignir Kjalarvogs á 735 m.kr. Heildarskuldir félagsins voru um 582 m.kr. 31.12.2005 og þar af námu langtímaskuldir um 350 m.kr. Veltufjárhlutfall í lok tímabilsins var 3,27. Eigið fé Kjalarvogs ehf. þann 31.12.2005 nam 153 m.kr og eiginfjárhlutfall var 20,8%.

Tilgangur Kjalarvogs er að reka tvær rekstrareiningar, Blómaval og Ískraft. Í þeim rekstri felst innflutningur, heildsala og smásala á neytenda- og iðnaðarvörum, ásamt annarri starfsemi, sem af því leiðir. Ágætlega horfir um rekstur Blómavals og Ískrafts og nú á næstunni verða opnuð útibú Blómavals og Ískrafts á Austurlandi.