Almennir kjarasamningar runnu út á sunnudaginn og veldur það óvissu um launa- og verðlagsþróun á næstu misserum. Alls eru nú um 80 samningar lausir samkvæmt upplýsingum frá Ríkissáttasemjara.

Áður en það slitnaði upp úr viðræðum Samtaka atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) í gær höfðu forsvarsmenn atvinnulífsins verið með yfirlýsingar um að skammtímasamningur væri í burðarliðnum, svokallaður aðfarasamningur, sem átti að gilda í eitt ár.

Bæði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ og Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, höfðu, dagana áður en samningum var slitið, sagt að viðræðurnar gengju ágætlega með setningum eins og að "jákvæður tónn sé í viðræðunum" og að "menn séu farnir að sjá til lands."

Þessar yfirlýsingar komu þrátt fyrir að launaliðurinn hefði ekkert verið ræddur. Um leið og menn fóru að ræða hann slitnaði upp úr viðræðunum sem gefur til kynna að mikið beri í milli.

Í Viðskiptablaðinu er úttekt á kjaraviðræðunum.