Kerecis tapaði ríflega 6,8 milljónum dollara eða um 830 milljónum króna á síðasta reikningsári, sem náði frá 1. október árið 2018 til 30. september árið 2019. Er miðað við að meðalgildi dollars á reikningsárinu hafi verið 122 krónur. Tekjur félagsins á tímabilinu námu tæplega 7,8 milljónum dollara eða tæplega 950 milljónum króna.

Kerecis breytti reikningsárinu hjá sér í fyrra. Á reikningsárinu 2018, sem náði frá 1. janúar til 30. september það ár, námu tekjurnar tæplega 3,6 milljónum dollara. Hafa þær því ríflega tvöfaldast á milli reikningsára. Tap félagsins á reikningsárinu 2018 nam tæplega 1,5 milljónum dollara.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og einn stofnenda Kerecis , segir að rekstrarniðurstaðan hafi verið góð að því leyti að kostnaður sé að minnka og tekjur að vaxa. Framlegðarprósentan hafi verið 90% samanborið við 87,1% árið 2018.

„Tekjuaukningin er mjög sterk, sölu- og markaðskostnaður er enn mikill sem prósenta af veltu og sama má segja um kostnað vegna rannsóknar og þróunar,“ segir hann. „Ég held að það sé eðlilegt fyrir fyrirtækið á þessu stigi.“

Starfsemi Kerecis felur í sér framleiðslu á afurðum sem byggðar eru á affrumuðu þorskroði, sem inniheldur fjölómettaðar fitusýrur en sýnt hefur verið fram á að roðið hefur jákvæð áhrif á frumuinnvöxt. Lykilvara Kerecis í dag er sáraroð sem notað er til meðhöndlunar á brunasárum og þrálátum sárum vegna sykursýki. Félagið var stofnað af Guðmundi Fertram Sigurjónssyni ásamt læknunum Hilmari Kjartanssyni, Baldri Tuma Baldurssyni og einkaleyfalögfræðingnum Ernest Kenney. Á síðustu árum hefur fyrirtækið fengið fjölda nýsköpunarverðlauna.

Í lok síðasta reikningsárs voru hluthafarnir alls 113 talsins. Stærstu einstöku hluthafarnir eru Omega ehf., sem er í eigu Novator með tæp 15% og franska félagið CuraeLab með um 14%. Þá eiga stofnendur og starfsfólk alls um 33% hlut í fyrirtækinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .