Að meðaltali hvíla tæplega 900 þúsund króna skuldir og skuldbindingar á hverjum íbúa á Vestfjörðum. Það er umtalsvert minna en í flestum stærstu sveitarfélögum landsins. Eins og greint var frá fyrir tveimur vikum í fréttaskýringu Viðskiptablaðsins um stöðu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum hvíla að meðaltali 1,7 milljónir króna á hverjum íbúa vegna skulda og skuldbindinga. Tölurnar sem liggja þessu til grundvallar eru fengnar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og eru unnar upp úr fjárhagsáætlum sveitarfélaga fyrir árið 2010.

Ólík vandamál Mestar eru skuldirnar í Vesturbyggð, en þar eru skuldir og skuldbindingar á hvern íbúa rúmlega 1,4 milljónir króna. Langtímaskuldir eru þar af tæplega 1,1 milljarður en skammtímaskuldir 160 milljónir. Eigið fé sveitarfélagsins er þó jákvætt um 297 milljónir króna miðað við stöðuna eins og hún var um áramót. Stærsta sveitarfélagið á Vestfjörðum, Ísafjarðarbær, er með samtals rúmlega fimm milljarða skuldir og skuldbindingar. Það gerir 1,3 milljónir á hvern íbúa. Eigið fé sveitarfélagsins er hins vegar fremur knappt, eða 108 milljónir króna. Vandamál sveitarfélaganna á Vestfjörðum eru svipuð og hjá flestum minni sveitarfélögum landsins, m.a. þeim á Vesturlandi sem fjallað var um í Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Þar eru það helst gengisfallið og tekjufall sem hafa valdið vandræðum. Á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum eru það ekki síst eftirköst fasteignabólunnar sem eru íþyngjandi, þ.e. skil á lóðum, sem og áhrif gengisfalls á miklar skuldir dótturfyrirtækja eins og orkuveitna og hafnarsjóða.

Eiga allt undir sjávarútvegi Sjávarútvegur er helsti atvinnuvegurinn á Vestfjörðum. Þrátt fyrir að rekstur margra sjávarútvegsfyrirtækja sé erfiður um þessar mundir, vegna mikilla skulda öðru fremur, þá hafa skatttekjur sveitarfélaga af sjávarútvegnum haldist nokkuð stöðugar undanfarna mánuði. Tekjutap, til lengri tíma, stafar ekki síst af fólksfækkun víða á landsbyggðinni. Því færra fólk, því minni skatttekjur. Það sveitarfélag sem stendur best er Árneshreppur, en hann var í lok árs 2009 með 50 íbúa. Eigið fé á hvern íbúa er rúmlega 1,1 milljón en skuldirnar nema um 60 þúsund krónum á hvern íbúa. Svo fámenn sveitarfélög hafa á móti litla sem enga getu til þess að fara út í framkvæmdir.