Um fimm prósent einstaklinga eru á vanskilaskrá hjá Creditinfo Ísland að sögn Hákons Stefánssonar, stjórnarformanns félagsins. Á skránni eru meðal annars upplýsingar um þá aðila sem hafa orðið gjaldþrota eða hafa verið úrskurðaðir í árangurslaust fjárnám.

Einnig eru þar upplýsingar um þá sem hafa ekki staðið í skilum við innheimtufyrirtæki.

Hákon segir að viðkomandi aðilar geti ekki neitað því að lenda á vanskilaskrá hafi krafan ekki verið greidd.

Upplýsingarnar í vanskilaskrá eru m.a. fengnar frá opinberum aðilum, svo sem sýslumannsembættum, dómstólum og úr Lögbirtingarblaðinu. Einnig eru þær fengnar frá innheimtu- og lögfræðistofum.

Í síðarnefnda tilvikinu verða innheimtufyrirtækin að hafa skriflegt samþykki og þar með vitneskju skuldara fyrir því að hann geti lent á vanskilaskrá standi hann ekki í skilum.

Creditinfo Ísland selur upplýsingarnar til fyrirtækja og stofnana sem hafa „lögvarða hagsmuni" að því að fá slíkar upplýsingar, eins og það er orðað hjá félaginu. Þetta eru m.ö.o. aðilar sem eru í einhvers konar lánafyrirgreiðslu. Til dæmis bankar og fyrirtæki sem veita bílalán.

Geta kvartað til Persónuverndar

Þeir aðilar sem lenda á vanskilaskrá hafa rétt á því að fá vitneskju um það til hvaða aðila upplýsingar um þá hafa verið seldar og hvaða aðilar hafa flett þeim upp í skránni.

Hafi einhverjir aðilar flett þeim upp, sem þeir hafa ekki verið í samskiptum við, geta þeir kvartað til Persónuverndar.

Creditinfo Ísland er í um fimmtíu prósent eigu stofnandans Reynis Grétarssonar. Scoresoft SAM á 25,6%. Spron á 7,8%. Landsbankinn 5%, Byr 5% og aðrir 6,3%.