Um fjörutíu til fimmtíu manns sóttu um framkvæmdastjórastöðu Portusar, að sögn Péturs J. Eiríkssonar, stjórnarformanns félagsins. Höskuldur Ásgeirssson, fyrrverandi forstjóri Nýsis, var ráðinn í stöðuna á dögunum.

Áður átti Nýsir fimmtíu prósent í Portusi á móti Landsbankanum en sem kunnugt er hefur Nýsir verið lýst gjaldþrota. Í kjölfarið var tónlistarhúsið alfarið tekið yfir af ríki og borg.

Portus er því nú í eigu Austurhafnar sem er í eigu ríkis og Reykjavíkurborgar. Portus á að annast byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík.

„Ég sem stjórnarformaður gekk frá ráðningunni en stjórnin í heild ræður í raun í stöðuna," segir Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portusar, um ráðningu Höskuldar.

Auk Péturs eru fjórir í stjórn Portusar.

Þegar hann er spurður hvort einhver skilyrði hafi verið sett fyrir ráðningunni svarar hann því til að reynsla sem framkvæmdastjóri hafi verið talin æskileg. Einnig stjórnun á verkefnum í byggingargeiranum.