Tæpur helmingur kjósenda í Reykjavík eða 48,1% vill að Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borginni verði næsti borgarstjóri. Rétt rúm 25% kjósenda styður hins vegar Halldór Halldórsson, oddvita Sjálfstæðisflokksins, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Morgunblaðsins. Kosið verður um borgarstjórastólinn í sveitarstjórnarkosningunum í vor.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að dregið hafi lítillega úr stuðningi við Dag síðan í janúar en þá mældist hann með 49,4% fylgi.

Í könnun Félagsvísindastofnunar er S. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar með rétt innan við 10% fylgi kjósenda í Reykjavík. Sóley Tómasdóttir, oddviti VG, er með 6,0% fylgi, Halldór Auðar Svansson hjá Pírötum með 2,2% fylgi og Óskar Bergsson, oddviti Framsóknarflokksins, með 0,9% fylgi sem næsti borgarstjóri. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem ekki kæmi manni inn í borgarstjórn, samkvæmt niðurstöðum nýlegrar könnunar.