Þetta þýðir að um 14-16 þúsund manns mæti á hátíðina. Þar af fara um sjö til átta þúsund með Herjólfi.

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum segir að Þjóðhátíðarnefnd hafi verið í ákveðinni vöruþróun undanfarin ár að því leyti að nú er boðið upp á styttri ferðir þannig að fólk geti komið bara á laugardegi eða bara á sunnudegi.  „Og við sjáum umtalsverða breytingu á því. Það eru jafnmargir sem koma og taka þátt í þessu öllu með okkur heimamönnum en það eru fleiri og fleiri sem koma og eru bara á laugardaginn eða bara á sunnudaginn,“ segir Elliði og bætir því við að þetta stækki Þjóðhátíð.

Elliði segir að í Vestmannaeyjum sé núna átján gráðu hiti og hægviðri og tvö skemmtiferðaskip séu í bænum til viðbótar við gesti Þjóðhátíðar. Bærinn iði því af mannlífi.

Þjóðhátíðin byrjar á morgun og Elliði segir að eldri Eyjamenn noti daginn í dag til þess að undirbúa helgina. Algengt sé að fjölskyldur hittist síðan á fimmtudagskvöldinu. „Yngri kynslóðin fer hins vegar á hið margrómaða húkkaraball,“ segir hann.

Elliði segir að Þjóðhátíðin sé mjög hátíðleg. „Mann svíður stundum að sjá fjallað um þjóðhátíð eins og hverja aðra útihátíð sem þetta er auðvitað ekki,“ segir hann.  „Þjóðhátíð ætti að vera skrásett vörumerki og undir ætti að standa varist eftirlíkingar,“ bætir Elliði við í léttum dúr.