Níu flokkar hafa verið ýmist inni eða úti í skoðanakönnunum í Reykjavík og hefur munurinn verið allt að tveir borgarfulltrúar í fylgi flokkanna sem eru inni. Eins og Viðskiptablaðið hefur farið ítarlega í gegnum hefur munurinn á fylgi, og þar með borgarfulltrúum, í Reykjavík í skoðanakönnunum sem birst hafa undanfarna daga, vikur og mánuði verið nokkur.

Þrátt fyrir að framboðin láti oft eins og oddvitarnir og borgarstjórnarefnin séu það sem kosið er út á, getur munað örfáum atkvæðum á því hvernig sætin sjálf raðast sem skipt getur sköpum í lífi bæði frambjóðenda og hvernig hægt er að setja saman meirihlutasamstarf.

Oddvitar á auglýsingaskiltum en aðrir í baráttusætum

Því er gaman að skoða aðeins hvaða frambjóðendur í raun er verið að kjósa um, en nöfn þeirra sem eru í baráttusætum flokkanna heyrast oft lítið fyrr en á kosninganótt þegar þau detta inn og út.

Samfylkingin hefur rokkað frá 7 upp í 9 sæti í könnunum. Í 8. og 9. sæti á lista Samfylkingar í Reykjavík eru þau Magnús Már Guðmundsson varaborgarfulltrúi en hann hefur starfað sem kennari og blaðamaður, býr í Fossvogshverfinu, og Ragna Sigurðardóttir læknanemi og formaður Stúdentaráðs.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið með ýmist 7 eða 8 borgarfulltrúa í könnunum. Í 8. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins er Björn Gíslason varaborgarfulltrúi en hann er Húsgagnasmiður og slökkviliðsmaður, sem hefur setið í stjórn íþróttafélagsins Fylkis í Árbæ þar sem hann býr, frá árinu 2001.

Í 9. sæti flokksins er svo Jórunn Pála Jónasdóttir lögfræðingur úr Breiðholti. Jórunn hefur setið í hverfisráði Breiðholts, velferðarráði Reykjavíkurborgar, verið formaður Landsamtaka íslenskra stúdenta, setið í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna og verið formaður og setið í stjórn Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta.

Píratar hafa viðvarandi haldið tveimur borgarfulltrúum í öllum könnunum, það eru þær Dóra Björt Guðjónsdóttir alþjóðafræðingur og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir umhverfis- og skipulagsfræðingur.

Vinstri græn hafa í flestum könnunum einnig haldið tveimur fulltrúum, en í nýjustu könnuninni er oddvitinn, Líf Magneudóttir sú eina sem kemst inn. Í öðru sæti er Elín Oddný Sigurðardóttir varaborgarfulltrúi, búsett í Háaleitishverfi, en hún hefur starfað hjá Hinu húsinu, Þjóðarbókhlöðunni, Tryggingastofnun og Klúbbnum Geysi.

Viðreisn hefur verið inni með oddvitann, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur rekstrarhagfræðing í flestöllum könnunum, en Pawel Bartoszek stærðfræðingur sem hefur verið í öðru sæti hefur ekki verið inni í langan tíma fyrr en nú í könnuninni sem birtist í gærkvöldi. Pawel, sem fæddist í Póllandi, en flutti ungur til Íslands með foreldrum sínum hefur starfað sem aðjúnkt við HR og verkefnastjóri hjá Qlik Datamarket ásamt því að sitja í stjórnlagaráði og á Alþingi um tíma.

Oddviti Miðflokksins , Vigdís Hauksdóttir hefur jafnframt verið inni í flestum könnunum, en Baldur Borgþórsson einkaþjálfari í World Class sem er í öðru sæti hefur einnig mælst inni í einstaka könnunum. Vilborg Hansen landfræðingur og fasteignasali sem áður var tilkynnt um að væri í öðru sæti listans sagði sig af honum í apríl.

Oddvitar minnstu þriggja flokkanna nálægt borgarstjórnarsæti

Oddvitar þriggja síðustu flokkanna hafa verið ýmist inni í borgarstjórn eða ekki, oft sitt á hvað en meðaltal síðustu kannana sínir þá alla með mjög svipað fylgi .

Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur, sem situr í barnaverndarnefnd Reykjavíkur, leiðir lista Flokks fólksins . Hún starfaði áður í Sjálfstæðisflokknum og gaf kost á sér í prófkjörum flokksins 2006 og 2009, en hún hefur verið formaður Barnaheilla frá árinu 2012 til þessa árs.

Ingvar Már Jónsson flugstjóri hjá Icelandair og varaþingmaður Framsóknarflokksins leiðir lista flokksins í borginni. Hann er fyrrverandi varaborgarfulltrúi.

Sanna Magdalena Mörtudóttir er oddviti Sósíalistaflokksins en hún er sögð námsmaður og málsvari fátækra barna í fréttatilkynningum frá flokknum. Hún hefur lært mannfræði í grunn og framhaldsnámi.

Hér má lesa eldri fréttir um fylgi flokkanna í borginni:

Hér má lesa skoðanadálka, leiðara og pistla í Viðskiptablaðinu um málefni Reykjavíkurborgar: