Nú um miðjan desember stendur fjöldi atvinnulausra í rúmlega níu þúsund manns en það svarar til um 5,5% atvinnuleysis. Þetta kemur fram á vef Alþýðusambands Íslands.

„Á aðeins tveimur mánuðum hefur ástandið versnað jafn mikið og á tveimur árum á erfiðleiktímabilinu í upphafi síðasta áratugar," segir á vef ASÍ.

Bent er á að flestir atvinnulausra komi úr mannvirkjagerð, þá úr verslun, iðnaði, flutningastarfsemi og ýmissi þjónustustarfsemi. Þá  koma langflestir atvinnulausra úr yngstu aldurshópunum frá 20 ára aldri.

Búist við mikilli aukningu í febrúar

ASÍ segir á vefnum að horfurnar fari enn versnandi. Skýrustu vísbendingarnar um það séu fjöldi tilkynntra uppsagna. „Alls hefur hátt í 5.000 manns verið sagt upp á árinu með hópuppsögnum. Stærstur hluti þeirra barst í október og miðað við 1-3 mánaða uppsagnarfrest má því búast við mikilli aukningu atvinnulausra a.m.k. fram í febrúar á næsta ári."

Það muni þó draga úr áfallinu að stór hluti erlendra starfsmanna muni líklega hverfa heim á leið fyrr en seinna svo og að margir muni nýta sér möguleika til frekara náms nú þegar atvinnuhorfur versna.