Endurskipulagning skulda fyrirtækja er mikilvæg forsenda fjárfestingar og þar með hagvaxtar til framtíðar. Skuldsetning einkageirans í aðdraganda kreppunnar á sér fá ef nokkur fordæmi og á þetta því sérstaklega við um Ísland. Um þriðjungur íslenskra fyrirtækja er með neikvætt eigið fé.

Þetta segir í Hagsýn, nýju vefriti efnahags- og viðskiptaráðuneytis sem mun koma út annan hvern þriðjudag. Ritið kom út í fyrsta sinn í dag.

„Yfirskuldsett fyrirtæki geta ekki bætt við sig nýju starfsfólki eða fjárfest í nýjum og bættum framleiðslutækjum þrátt fyrir bætta samkeppnisstöðu hagkerfisins. Útflutningsdrifinn hagvöxtur mun því láta á sér standa og atvinnuleysi dregst ekki saman sem skyldi,“ segir í Hagsýn.

Segir að misbrestur við endurskipulagningu skulda geti haldið aftur af hagvexti til lengri tíma litið. Það sýni reynsla Japana síðastliðna tvo áratugi. „Mikilvægt er að auka fjárfestingu á Íslandi en hlutfall hennar af landsframleiðslu var aðeins um 14% árið 2009 en þyrfti að vera um 20% til þess að viðhalda nærri 3% hagvexti til lengri tíma.“

Þá kemur fram að á milli fimm til sjö þúsund fyrirtæki eru með neikvætt eigið fé. Það er um þriðjungur íslenskra fyrirtækja. Við eignarýrnun og gríðarlegrar skuldaaukningar jókst neikvætt eigið fé fyrirtækja árið 2009 í 6.635 milljarða króna á meðan jákvætt eigið fé fyrirtækja nam 6.812 milljörðum króna

Þörf á átaki - úrvinnsla gengið of hægt

Í kerfislægri kreppu þarf að beita öðrum aðferðum en í venjulegu árferði til lausnar vanda fyrirtækja. Í eðlilegu árferði geta fyrirtæki farið fram á greiðslustöðvun, leitað nauðasamninga eða lýst sig gjaldþrota. Á sama hátt getur lánadrottinn gengið að veðum eða knúið fram gjaldþrotaskipti. Í kreppu geta þessar leiðir orsakað vítahring gjaldþrota, aukið greiðsluvanda annarra fyrirtækja og ýtt undir viðvarandi atvinnuleysi. Slík atburðarás dregur úr möguleikum á efnahagsbata og festir hagkerfið í djúpri lægð.“

Í Hagsýn segir að úrvinnsla skuldamála fyrirtækja hafi gengið allt of hægt á undanförnum mánuðum. „Óvissa bankanna um svigrúm þeirra til aðgerða hefur tafið fyrir verkefninu. Nú liggur fyrir að svigrúm bankanna til niðurfærslu lána til fyrirtækja er umtalsvert. Lánastofnanir hafa mikla hagsmuni af endurskipulagningu, til að tryggja endurgreiðslur lána til framtíðar. Fyrirtækin hafa mikla hagsmuni af því að skuldir þeirra verði samræmdar greiðslugetu og þeim þar með tryggt að þau geti starfað áfram, eflt rekstur sinn og fjölgað starfsfólki.“

Gæta þurfi að því að einstaka aðilar fái ekki óeðlilega fyrirgreiðslur á meðan lítil og meðalstór fyrirtæki með góðar rekstrarhorfur sitji eftir með sárt ennið. Segir að stjórnvöld gegni lykilhlutverki við að greiða úr þeirri stöðu sem uppi er. Þau þurfi að setja skýr markmið og aðstoða við úrlausn deilumála á milli kröfuhafa sem sjálfir þurfa að endurmeta kröfur sínar. „Þá verður að gera upp ólífvænleg fyrirtæki eins fljótt og kostur er.“

Helmingur fyrirtækja í vanskilum

Um helmingur fyrirtækja er í vanskilum við viðskiptabankana. Þó eru aðeins 4% fyrirtækja gjaldþrota.„Nær allar eftirstöðvar lána gjaldþrota fyrirtækja eru vegna lántöku í erlendri mynt. Horfa þarf til annars vegar gjaldfærni fyrirtækja samkvæmt efnahagsreikningi (e. balance sheet solvency), þ.e. hvort fjárhæð skulda sé umfram fjárhæð eigna, sem orsaki neikvæða eiginfjárstöðu. Hins vegar þarf að líta á greiðslugetu fyrirtækja (e. cash flow solvency), þ.e. hvort þau ráði við greiðslur af lánum þegar gjalddagi rennur upp. Taka verður sérstaklega tillit til fyrirtækja með lán í erlendri mynt og hvort tekjustreymi þeirra sé þá einnig í erlendri mynt að einhverju leyti. Fyrirtæki með lán í íslenskum krónum standa að jafnaði betur, enda með tekjur í sömu mynt og þau skulda eða tekjur í erlendri mynt og skuldir í íslenskum krónum.“