Um tólf til fjórtán verslunarrými standa auð á Laugaveginum þessa dagana en Sigrún Lilja Guðbjartsdóttir, framkvæmdastjóri Miðborgar Reykjavíkur, segir það í sjálfu sér ekkert óeðlilegt.

Alls kyns hrókeringar eigi sér stað. Einhverjar verslanir séu að hætta en aðrar muni koma í staðinn.

Þá séu dæmi um verslanir sem séu að flytja sig á milli staða innan miðborgarinnar. Ein þeirra er verslunin Skarthúsið.

Sigrún Lilja segir að verslun í miðborginni sé ekkert verri en annars staðar. Alls staðar sé samdráttur. Þar með hljóti verslunareigendur að leita leiða til að hagræða. Til dæmis með því að leita að ódýrara húsnæði.

Einhverjar verslanir séu til að mynda að flytja sig innan miðborgarinnar vegna þess að þær hafi ekki náð að semja um ódýrari leigu við fyrri fasteignaeigendur.

Fólk leitar meira í miðbæinn

Áslaug Friðriksdóttir, formaður Miðborgar Reykjavíkur, segir að hún hafi í raun búist við að ástandið myndi verða verra, en það er í raun, í kjölfar efnahagshrunsins.

Hún segir að það jákvæða sé að fólk virðist leita meira í miðbæinn og gefa sér meiri tíma til að njóta þess sem hann hafi upp á að bjóða. Þar séu enda kaffi- og veitingahús og fjölbreyttar verslanir.