Umboðsmaður Alþingis hefur skrifað bréf til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra þar sem hann óskar eftir ítarlegri svörum frá Hönnu Birnu um samskipti hennar við Stefán Eiríksson lögreglustjóra.

Umboðsmaður vill fá að vita hvenær fundir Hönnu Birnu og Stefáns hafi farið fram, hvaða málefni hafi verið rædd á fundunum og hver boðaði lögreglustjóra á fundina. Einnig er beiðni um fundargerðir og önnur slík gögn ítrekuð. Hann fer jafnframt fram á að fá afhent afrit af gagna- og rannsóknarbeiðnum lögreglu sem beint var til innanríkisráðuneytisins eftir að rannsókn málsins hófst í febrúar. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum hvenær einstökum beiðnum hafi verið svarað af hálfu ráðuneytisins.

Þá vill Umboðsmaður Alþingis fá útlistun á því hvað af samskiptum Hönnu Birnu og Stefáns hafi verið skráð í samræmi við reglur um skráningu formlegra samskipta og ef samskiptin hafi ekki verið skráð með þeim hætti hverjar ástæðurnar fyrir því hafi verið.

Þá segir í bréfinu:
„Til þess að glöggva sig almennt á framkvæmd laga nr. 1200/2013 að því er varðar skráningu símtala og funda hjá ráðuneytinu óskar umboðsmaður eftir að fá afhent afrit af heildarskrá innanríkisráðuneytisins um þessi atriði á tímabilinu 1. janúar til 1. júlí 2014. Ef ráðuneytið telur það erfiðleikum bundið að afhenda afrit þessara gagna í ljósi þess að umfang þeirra er það verulegt eða það verði ekki gert innan þess tíma sem óskað er eftir svari við bréfi þessu er óskað eftir að það komi fram og umboðsmaður mun kynna sér umræddar skrár í ráðuneytinu.“

Umbosmaður óskar þess að svar við bréfinu berist í síðasta lagi 15. ágúst