Emily O'Reilly, Umboðsmaður Evrópusambandsins (e. ombudsman ), hefur hvatt Seðlabanka Evrópu til að hætta að hitta markaðsaðila, s.s. vogunar- og fjárfestingarsjóða áður en hann tekur stefnumarkandi ákvarðanir.

Emily hefur tilkynnt að hún muni senda bréf til Mario Draghi, bankastjóra Seðlabanka Evrópu þar sem hún færir rök fyrir því að bankinn ætti ekki að funda með markaðsaðilum til að tryggja að þeir hafi ekki forskot á markaðinn áður en stefnumarkandi ákvarðanir eru teknar, t.d. stýrivaxtahækkanir.

Talið er að orð Emily muni endurvekja umræðu og gagnsæi innan Seðlabankans en bankinn er vafalaust á meðal valdamestu stofnanna innan Evrusvæðisins. Seðlabankinn varð fyrir gagnrýni eftir að fulltrúar bankans snæddu kvöldverð með forstjórum vogunarsjóða bak við læstar dyr, en í ljós kom að fulltrúar bankans gáfu upp upplýsingar sem voru bundnar trúnaði.