Á morgun verða 25 ár liðin frá því skrifstofa umboðsmanns Alþingis var opnuð. Þann dag mun forseti Alþingis afhenda umboðsmanni Alþingis húsið Þórshamar við Templarasund 5 í Reykjavík til afnota fyrir skrifstofur embættisins við athöfn í húsinu. Í tilkynningu er farið yfir sögu embættisins, en það var stofnað með lögum sem samþykkt voru árið 1987. Gaukur Jörundsson var kjörinn umboðsmaður í desember það ár og hóf þá undirbúning opnunar skrifstofu embættisins. Hún var formlega opnuð 11. júlí 1987 að Rauðarárstíg 27 í Reykjavík. Um þessar mundir er Róbert R. Spanó settur umboðsmaður samhliða Tryggva Gunnarssyni, sem vinnur að sérstöku verkefni á vegum embættisins.

Róbert R. Spanó, prófessor
Róbert R. Spanó, prófessor
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Skrifstofan var síðar flutt í Lágmúla og þaðan í Álftamýri. Fyrir nokkrum árum ákvað forsætisnefnd Alþingis að stefnt yrði að flutningi á skrifstofum umboðsmanns í Þórshamar. Húsið er byggt 1912 og hefur verið í eigu Alþingis frá árinu 1978 og nýtt undir starfsemi þingsins. Húsið var byggt sem íbúðarhús og var eitt af fyrstu steinsteyptu húsunum í Reykjavík. Í tilefni af flutningi umboðsmanns Alþingis í húsið hafa verið gerðar endurbætur á því að innan sem hafa miðað að því að færa útlit hússins til samræmis við byggingartíma þess. Enn er unnið að því að bæta aðgengi að húsinu fyrir þá sem ekki geta farið um tröppur á framhlið þess.

Á þeim 25 árum sem umboðsmaður Alþingis hefur starfað hafa verið skráð alls 7.548 mál hjá honum eða að meðaltali um 300 mál á ári. Flest urðu málin hins vegar á árinu 2012 eða 536. Af skráðum málum hafa um 65% þeirra verið tekin til efnislegrar athugunar en önnur hafa ekki uppfyllt skilyrði laga til þess að umboðsmaður hafi getað fjallað um þau. Af þeim málum sem umboðsmaður hefur tekið til efnislegrar athugunar hafa um 32% verið felld niður að lokinni frumathugun, um 46% hafa verið felld niður að fenginni leiðréttingu eða skýringu stjórnvalds. Alls hefur umboðsmaður lokið 1.010 málum með áliti, það er um 22% þeirra mála sem hafa komið til efnislegrar athugunar en 14% þegar miðað er við heildarfjölda þeirra mála sem umboðsmanni hafa borist.