Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hefur nú birt niðurstöður frumkvæðisathugunar sinnar á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, og Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra, í lekamálinu.

Þar kemur fram að Hanna Birna hafi sent umboðsmanni bréf þann 8. janúar síðastliðinn þar sem hún lýsti því yfir að það hefðu verið mistök af hennar hálfu að eiga samskipti við lögreglustjórann vegna rannsóknar málsins meðan hún stóð yfir.

Í skýrslu sinni kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að samskipti Hönnu Birnu við Stefán hafi verið verulega umfram það sem gat samrýmst því að um væri að ræða efnislegar fyrirspurnir til að greiða fyrir rannsókn málsins eða meðferð gagna frá ráðuneytinu.

„Af efni samskiptanna, samkvæmt lýsingu lögreglustjóra, tel ég ljóst að þau hafi falið í sér ítrekaða gagnrýni og beinar athugasemdir ráðherra við það hvernig embætti lögreglustjórans stóð að rannsókninni, vinnubrögð lögreglunnar og einstakar rannsóknarathafnir. Ég lít svo á að þarna hafi verið um að ræða harða gagnrýni ráðherra á ákvarðanir og störf lögreglunnar í þessu máli,“ segir umboðsmaður.

Í samræmi við þetta sé það niðurstaða hans að efni samskiptanna hafi ekki samrýmst þeim reglum sem ráðherra hafi borið að virða um sjálfstæði og hlutlægni lögreglunnar.