Kú - mjólkurbú segir niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála vera alvarlegan áfellisdóm yfir starfshætti Mjólkursamsölunnar, í fréttatilkynningu frá Ólafi M. Magnússyni mjólkurbússtjóra Kú.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um í morgun lækkaði nefndin sekt MS úr 480 niður í 40 milljónir króna, en Félag atvinnurekenda gagrýndi úrskurðinn sem þeir segja heimili MS að mismuna keppinautum sínum í verði á hrámjólk.

Ólafur í Kú segir MS hafa orðið uppvíst um að villa um fyrir samkeppnisyfirvöldum og þannig tafið úrlausn málsins.

Einnig ætlar félagið að senda erindi til umboðsmanns Alþingis vegna mögulegs vanhæfis Stefáns Márs Stefánssonar í áfrýjunarnefndinni vegna starfa sinna fyrir íslenskan landbúnað og Landbúnaðarráðuneytið.

Segir ávirðingar MS hraktar

„Það með öllu ólíðandi að MS geti með þessu hætti tafið úrlausn svo alvarlegra mála sem hér um ræðir, slíkt getur haft úrslitaáhrif á afdrif keppinauta þeirra,“ segir í tilkynningu Ólafs.

„Niðurstaða áfrýjunarnefndar er jákvæð hvað varðar hlut Samkeppniseftirlitsins og þær alvarlegu ávirðingar sem MS hefur haft uppi gagnvart forstjóra þess og starfsmönnum, þær ávirðingar eru með öllu hraktar í niðurstöðum áfrýjunarnefndar sem staðlausir stafir.

Keppinautar MS varnarlausir gagnvart ofríki

Niðurstaða meirihluta áfrýjunarnefndar skilur keppinauta  MS eftir algjörlega varnarlausa gagnvart ofríki og ósvífinni framgöngu MS. Þannig er verndaráhrifum samkeppnislaga algjörlega vikið til hliðar og MS gefið fullt sjálfdæmi um framgöngu gagnvart keppinautum sínum.

Er þessi niðurstaða í fullri andstöðu við niðurstöðu Hæstaréttar í svokölluð „Osta- og smjörsölumáli“ frá árinu 2006. Niðurstaðan meirihlutans er byggða á veikum grunni og rökstuðningur ósannfærandi og fátæklegur.

Niðurstaðan dauðadómur yfir keppinautum

Þessi niðurstaða er því dauðadómur yfir keppinautum Mjólkursamsölunnar á þessum markaði og allri samkeppni á mjólkurvörumarkaði til framtíðar. Því er þessi niðurstaða grafalvarleg og kallar á að Alþingi afnemi þegar í stað allar undanþágur MS frá samkeppnislögum svo keppinautum MS verði tryggt skjól gagnvart ofríki MS á þessum markaði.

KÚ – mjólkurbú skorar á Samkeppniseftirlitið að fara með niðurstöðu áfrýjunarnefndar til dómstóla sérstaklega í ljósi þess að niðurstaða hennar var klofin.

Sérstaklega ef til þess er litið að formaður áfrýjunarnefndar reifar með ítarlegum og sannfærandi hætti lagalegar forsendur þess að hann vilji að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins og viðurlög í hinni áfrýjuðu ákvörðun verði staðfest óbreytt.

Mögulegt vanhæfi Stefáns Más verði skoðað

KÚ – mjólkurbú mun í dag senda erindi til umboðsmanns Alþingis þar sem óskað verður eftir því að umboðsmaður skoði vinnubrögð áfrýjunarnefndar og skoði sérstaklega hæfi Stefán Már Stefánsson og hvort hann hafi hugsanlega verið vanhæfur til umfjöllunar um málið vegna starfa sinna fyrir íslenskan landbúnað og Landbúnaðarráðuneytið.“