Ásta Sigrún Helgadóttir hefur gegnt embætti umboðsmanns skuldara í rúm tvö ár, en hún var skipuð í embættið eftir að Runólfur Ágústsson sagði af sér skömmu eftir að hann var skipaður.

Fréttaflutningur af skuldamálum Runólfs leiddu til afsagnarinnar og var Ásta skipuð í hans stað, eins og áður segir. Ásta hafði sótt um á sama tíma og Runólfur og sagði Árni Páll Árnason, þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra, að þá hafi hún verið metin vel hæf til starfsins í hæfnismati við það tilefni. Ásta var mjög ósátt þegar Runólfur var tekinn fram yfir hana í upphafi og hafði gefið í skyn að hún myndi kæra ráðninguna.

Ásta Sigrún Helgadóttir er lögfræðingur að mennt. Hún lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1993 og hóf þá störf hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík þar sem hún starfaði sem lögfræðingur fjölskyldudeildar og barnaverndarnefndar Reykjavíkur til ársins 1999. Árin 1999-2003 starfaði Ásta í félagsog tryggingamálaráðuneytinu á skrifstofu jafnréttis- og vinnumála þar sem hún sinnti meðal annars málefnum innflytjenda, var starfsmaður kærunefndar húsnæðismála og úrskurðarnefndar félagsþjónustu og vann ýmis almenn lögfræðistörf.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 25. október 2012. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.