Umboðsmaður skuldara skuldar ríkissjóði 247 milljónir króna vegna þess að gjöld sem innheimt eru af lánastofnunum hafa ekki dugað fyrir rekstrarútgjöldum ársins. Er greint frá þessu í Morgunblaðinu í dag.

Ekki dregur jafnmikið úr starfsemi stofnunarinnar á næsta ári og reiknað hefur verið með. Í frumvarpi velferðarráðherra um gjöld á lánastofnanir er gert ráð fyrir að fjárheimildir embættisins verði auknar um 417 milljónir kr. frá fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Gjöld eru lögð á lánastofnanir til að standa undir rekstri umboðsmanns skuldara. Hallinn í ár stafar af því að afskrifa þarf gjald sem ekki innheimtist og af hærri kostnaði við umsjónarmenn með greiðsluaðlögun en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins. Þótt dregið hafi verið úr umfangi rekstrarins dugar það ekki til að minnka rekstrarútgjöld jafn mikið og stjórnvöld hafa áformað.