Umboðsmaður skuldara telur rétt að veita Samtökum fjármálafyrirtækja undanþágu frá samkeppnislögum við vinnu á endurútreikningi gengislána eftir dóm Hæstaréttar. Í frétt á vefsíðu umboðsmannsins segir að miklu skipti fyrir hagsmuni skuldara að allri óvissu varðandi túlkun á dómi Hæstaréttar, og áhrif hans á endurútreikning lána, verði eytt hið fyrsta. Einnig sé mikilvægt að allir skuldarar hafi sömu stöðu, óháð því hjá hvaða fjármálafyrirtæki lánið var veitt.

„Til að ná þessum tveimur markmiðum telur umboðsmaður skuldara rétt að veita Samtökum fjármálafyrirtækja undanþágu til að fjármálafyrirtæki geti unnið hratt og vel að niðurstöðu, enda muni fulltrúi umboðsmanns skuldara vera viðstaddur alla slíka fundi til að verja hagsmuni og rétt skuldara.“