Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hefur sent Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra nokkuð harðort bréf vegna orða Más Guðmundssonar seðlabankastjóra um að húsleit hjá Samherja árið 2013 hefði haft fælingaráhrif og þar að leiðandi styrkt gjaldeyrishöftin.

Í bréfinu rifjar umboðsmaður upp að RÚV hafi verið mætt við húsakynni Samherja áður en húsleitin hófst. Þá sendi Seðlabankinn út fréttatilkynningu á ensku um að húsleit hefði verið gerð í húsakynnum Samherja vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum.

Umboðsmaður telur fréttatilkynningu Seðlabankans og sú staðreynd að fjölmiðlar hafi verið viðstaddir upphaf húsleitarinnar vera komið í nýtt samhengi eftir ummæli Más um fælingaráhrif húsleitarinnar.

Þá segir Umboðsmaður að eftir að bréf Más var birt hafi honum verið veittar nánari upplýsingar um samskipti starfsmanna Seðlabankans og Ríkisútvarpsins í aðdraganda húsleitarinnar. Hann vilji því vita hver vitneskja yfirstjórnar Seðlabankans um samskipti starfsmanna Seðlabankans við starfsmenn RÚV.

„Þessar upplýsingar gefa að mínu áliti tilefni til að kallað verði eftir hver var í raun hlutur starfsmanna gjaldeyriseftirlits seðlabankans i að upplýsa starfsmann Ríkisútvarpsins um hina fyrirhuguðu húsleit. Þá tel ég þörf á að ganga eftir því við Seðlabanka Íslands hver hafi tekið ákvörðun um að veita upplýsingar og hver hafi verið aðkoma og vitneskja yfirstjórnar bankans um þessi samskipti við Ríkisútvarpið. Það er svo sjálfstætt álitaefni að hvaða lagagrundvelli starfsmenn Seðlabanka Íslands hafa talið sér heimilt að veita starfsmanni Ríkisútvarpsins upplýsingar að fjölmiðillinn gati verið viðstaddur við upphaf húsleitarinnar,“ segir umboðsmaður.

„Í þeirri tilvitnun í bréf seðlabankastjóra frá 29. janúar sl. sem tekinn er upp hér að framan er talað um aðgerðir Seðlabankans hafi haft „töluverð fælingaráhrif“ og það hafi t.d. glögglega mátt sjá eftir húsleitina hjá Samherja hf. en jafnframt er vísað til þess að slíkt sé ekki lögmætt sjónarmið í þessu sambandi. Þótt tekið sé fram að ekki hafi verið hugsað út í það fyrir fram er ekki síður mikilvægt vegna þess viðhorfs sem kemur fram um fælingaráhrifin að til framtíðar sé tekin skýr afstaða til þess að hvaða marki slíkt sjónarmið geti átt við um rannsóknaraðgerðir stjórnvalda vegna meintra brota borgaranna á lögum og reglum og um mat á þeim. Vekur þetta orðalag I bréfi seðlabankastjóra upp álitamál hvaða tilgangur hafi i raun búið að baki þess að veita ofangreindar upplýsingar um húsleitina og birta og dreifa frétt um hana með þeim hætti sem gert var í þessu máli,“ spyr umboðsmaður.

Umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum frá forsætisráðuneytinu um hvort þessi atriði verði tekin til athugunar þegar ráðuneytið krefji Seðlabankann um frekari upplýsingar í Samherjamálinu.