Skúli Magnússon, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, var nú rétt í þessu kjörinn umboðsmaður Alþingis til fjögurra ára. Skúli mun hefja störf á nýjum vettvangi þann 1. maí næstkomandi. Skúli verður þriðji maðurinn til að gegna starfinu á eftir Gauki Jörundssyni og Tryggva Gunnarssyni. Sá síðarnefndi lætur nú af starfi eftir rúmlega 20 ár sem umboðsmaður.

Alþingi kýs umboðsmann í samræmi við ákvæði laga sem um embættið gilda. Aðrir sem sóttust eftir embættinu voru héraðsdómararnir Ástráður Haraldsson og Kjartan Bjarni Björgvinsson en sá síðarnefndi hefur undanfarna mánuði verið settur umboðsmaður Alþingis. Lögmaðurinn Áslaug Björgvinsdóttir, sem jafnframt er fyrrverandi héraðsdómari, sóttist einnig eftir starfinu en dró umsókn sína til baka.

Skúli lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1995 og starfaði fyrst um sinn sem dómarafulltrúi við Héraðsdóm Reykjaness. 1998 lauk hann viðbótarnámi í réttarheimspeki frá Oxford-háskóla. Hann var aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt um aldamótin en hóf síðan störf sem lektor við lagadeild HÍ og síðar dósent. Þar starfar hann enn í hlutastarfi.

Skúli var skipaður héraðsdómari árið 2004 og var um skeið ritari EFTA-dómstólsins. Í byrjun þessa árs var hann settur dómari í Landsrétti. Þann 1. apríl síðastliðinn var hann kjörinn dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur eftir að Símon Sigvaldason, fyrrverandi dómstjóri, var skipaður í Landsrétt. Þá var hann um skeið formaður Dómarafélags Íslands. Líklega er þarna á ferð skemmsti ferill dómara sem dómstjóri við réttinn.

49 þingmenn greiddu Skúla atkvæði sitt en fjórir sátu hjá.