Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og formaður bankaráðs Seðlabankans, gerir athugasemd við fjárfestingar fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs eins og þeim er lýst í frumvarpi og greinargerð um sjóðinn. Segir Gylfi að hætt sé við töluverðum umboðsvanda (e. Principal - agent problem) í fyrirkomulagi fjárfestinga í frumvarpinu þar sem hagsmunir fjármálafyrirtækisins og ríkissjóðs fari ekki nema að hluta saman.

Þetta kemur fram í umsögn Gylfa um frumvarp til laga um Þjóðarsjóð sem nálgast má á vef Alþingis.

„Í frumvarpinu og greinargerð er talsverður texti um fjárfestingar fyrirhugaðs sjóðs. Er helst á honum að skilja að hugmyndin sé að samið verði við fjármálafyrirtæki um að reka sjóðinn eins og fjárfestingarsjóð í virkri stýringu (e. active portfolio management). Þannig myndu starfsmenn fjármálafyrirtækisins reyna að finna æskilegar eignir eða eignaflokka til að veðja á og kaupa ýmist eða selja eftir því hvað þeim líst best á hverju sinni,“ segir í umsögninni og jafnframt að ýmislegt sé við þetta að athuga.

„Í fyrsta lagi er hætt við töluverðum umboðsvanda (e. principal - agent problem) í slíku fyrirkomulagi þar sem hagsmunir fjármálafyrirtækisins (og jafnvel einstakra starfsmanna þess) og ríkissjóðs fara ekki nema að hluta saman. Það kallar á mjög virkt og mikið eftirlit af hálfu stjórnenda sjóðsins. Slíkt er alltaf dýrt, m.a. vegna þess að stjórnendurnir þurfa ekki einungis að fylgjast með fjármálafyrirtækinu heldur einnig alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þar fyrir utan er hætt við umboðsvanda vegna þess að hagsmunir stjórnendanna og ríkissjóðs fara ekki nema að hluta saman,“ segir Gylfi sem telur fyrirkomulagið ekki heppilegt af þessum sökum.

„Má raunar benda á því til stuðnings að þetta er ekki sú leið sem stærstu íslensku lífeyrissjóðirnir hafa farið við að ávaxta erlendar eignir sínar, sem eru raunar talsvert meiri en verða mun hjá Þjóðarsjóðnum. Lífeyrissjóðirnir ávaxta erlendar eignir sínar með því að reka eins konar sjóðasjóði (e. fund of funds). M.ö.o. Þá kaupa þeir hlutdeildarskírteini í fjárfestingarsjóðum sem reknir eru af stórum erlendum sjóðastjórnunarfyrirtækjum í stað þess að kaupa beint einstök verðbréf,“ segir Gylfi sem telur að sambærilegt fyrirkomulag væri mun heppilegra fyrir Þjóðarsjóðinn heldur en það sem lagt er til í frumvarpinu.