Umboðsmaður Alþingis hefur sent frá sér álit í kjölfar kvörtunar Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi vegna tafa á úrskurði umhverfisráðuneytisins vegna stjórnsýslukæru samtakanna varðandi ákvörðun Skipulagsstofnunar um matskyldu vegna borunar rannsóknarhola og lagningar vegslóða vegna borunar kjarnholu á Þeistareykjum í Aðaldælahreppi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.

Þar kemur fram að niðurstaða umboðsmanns er að afgreiðsla ráðuneytisins hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum hvað varðar tímafresti, en í þeim segir að úrskurði í kærumálum skuli kveða upp innan tveggja mánaða frá því að kærufrestur rennur út.

Þá kemur fram að umboðsmaður Alþingis geri í áliti sínu ekki athugasemd við efnislega niðurstöðu ráðuneytisins í málinu.

„Ráðuneytið hyggst skoða með hvaða hætti það getur brugðist við áliti og tilmælum umboðsmanns Alþingis,“ segir í tilkynningunni.

„Í því ljósi mun það m.a. meta í hverju tilviki hvort nauðsynlegt sé að leita umsagna sérfræðistofnana og leyfisveitenda við meðferð mála, án þess að það hafi áhrif á ríka rannsóknarskyldu stjórnvalda.“