Umtalsverð þróun hefur átt sér stað í íslensku nýsköpunarumhverfi á árunum eftir efnahagshrunið 2008. Fyrir þann tíma samanstóð umhverfið gróflega af Klak Innovit, sem í dag ber nafnið Icelandic Startups, og stofnað var árið 1999 af Nýherja sem og Innovit, sem stofnað var af einstaklingum og háskólunum árið 2007. Þá stóðu stjórnvöld að stofnun og rekstri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Aðeins einn framtaksfjárfestingarsjóður sem hafði það að markmiði að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum var starfandin og saman höfðu þessi fyrirtæki það hlutverk að fræða og styðja við íslensk nýsköpunarfyrirtæki.

Þrír nýjir viðskiptahraðlar

Á árunum eftir bankahrunið 2008 hefur mikið vatn runnið til sjávar hvað málefni nýsköpunar á Íslandi varðar. Í samantekt sem Einar Gunnar Guðmundsson, forsvarsmaður nýsköpunar hjá Arion banka, birti á heimasíðu sinni kemur fram að á Íslandi starfa í dag þrír viðskiptahraðlar (e. Accelerators) sem allir voru stofnaðir eftir árið 2008. Hlutverk þeirra er að gefa ákveðnum fjölda nýsköpunarfyrirtækja tækifæri til að þróa hugmyndir sínar áfram undir þeirra handleiðslu í fyrirframn ákveðinn tíma. Það er til að mynda gert með fjármagni og aðgangi að vinnuaðstöðu og sérfræðikunnáttu.

Startup Reykjavik er sá viðskiptahraðall sem hefur starfað hvað lengst en hann var stofnaður af Arion banka árið 2012. Þá kom bankinn einnig að stofnun Startup Energy Reykjavik sem hóf störf árið 2014 en aðrir bakhjarlar félagsins eru jafnframt Landsvirkjun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, GEORG, Iceland Geothermal og Icelandic Startups. Loks hóf Startup Tourism störf árið 2015 en það er viðskiptahraðall sem veitir allt að tíu sérvöldum sprotafyrirtækjum í ferðaþjónustu tækifæri til að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar undir leiðsögn sérfræðinga. Félagið er í eigu Icelandic Startups.

80 fyrirtæki síðan 2012

Það er erfitt að henda nákvæmlega reiður á hversu mikill þjóðhagslegur ávinningur hlýst af tilkomu slíkra hraðla í íslenskt viðskiptalíf en það má þó ætla að hann sé nokkur. Í lok árs 2015 höfðu þannig yfir 80 fyrirtæki farið í gegnum hraðlana og 60% af félögunum eru enn starfandi í dag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifndur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.