Framtakssjóðurinn Umbreyting hefur keypt fyrirtækin Borgarplast hf. og Plastgerð Suðurnesja ehf.

Í fréttatilkynningu um málið er Borgarplast sagt leiðandi í hverfismótaframleiðslu fyrir innanlandsmarkað, en bæði félögin framleiða vörur úr frauði, húsaeinangrun og frauðkassa til útflutnings á ferskum fiskafurðum og öðrum matvælum.

Eftir kaupin á Umbreyting 78% í sameinuðu fyrirtæki en aðrir hluthafar verða Haukur Skúlason, sem verður framkvæmdastjóri, og Sigurgeir Rúnar Jóhannsson, auk núverandi eigenda Plastgerðar Suðurnesja.

Stærstu hluthafar Borgarplasts voru Sjöfn Guðmundsdóttir og Guðni Þórðarson, sem hafa stýrt félaginu síðustu áratugi.

Icora Partners er rekstraraðili Umbreytingar, sem er 7 milljarða króna framtakssjóður sem hóf starfsemi árið 2018. Markmið Umbreytingar er sagt vera að vera öflugur bakhjarl fyrirtækja og stjórnenda þeirra. Áhersla verði lögð á að fjárfesta í fyrirtækjum sem búi yfir góðu og sannreyndu viðskiptamódeli og að stjórnendur hafi árangursmiðað hugarfar. Stefna Umbreytingar sé að skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi en þegar þau voru keypt og þannig skilja eftir sig jákvæð fótspor í íslensku atvinnulífi.

„Verkefnið er krefjandi og felur í sér umbreytingu á rekstri og efnahag sameinaðs félags. Félögin eru hins vegar rótgróin og rekstur þeirra traustur. Við hlökkum til samstarfsins við nýja lykilstjórnendur og meðeigendur okkar og munum styðja félagið til frekari vaxtar.” segir Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdarstjóri Icora Partners.

„Verkefnið er spennandi og sjáum við mörg tækifæri til að sinna viðskiptavinum betur, nýjum og núverandi. Við munum sameina rekstur félaganna fljótlega og styrkja þau til vaxtar, innanlands og erlendis, auk þess sem við munum fjárfesta í nýjum vélum og búnaði og ná þannig fram frekari hagræðingu í framleiðslu. Ég hlakka til að vinna með Icora Partners á þessari vegferð. Ég held að ekki hafi geta fengist betri samstarfsaðili í verkefnið en undirbúningur viðskiptanna hefur sýnt mér að Umbreyting sker sig úr öðrum innlendum sjóðum við nálgun framtaksverkefna.“ segir Haukur Skúlason, sem tekur við sem framkvæmdarstjóri sameinaðs félags.