Framtakssjóðurinn Umbreyting, sem er í stýringu Alfa Framtaks, hagnaðist um 2,3 milljarða króna á síðasta ári, samanborið við 96 milljónir árið áður. Afkoman skýrist einkum af 2,4 milljarða króna gangvirðisbreytingar á eignasafni sjóðsins.

Umbreyting hefur á síðustu árum meðal annars fjárfest í Travel Connect, Borgarplasti, Málmsteypu Þorgríms Jónssonar, Gröfu og grjót ásamt Nox Holding. Stærsta eign sjóðsins var 31,3% hlutur í Nox Holding sem var metinn á tæplega 3,8 milljarða í lok síðasta árs.

Eignir Umbreytingar voru bókfærðar á 8.840 milljónir í árslok 2021, þar af voru eignarhlutir í félögum 8.113 milljónir. Sjóðurinn fjárfesti fyrir 1,8 milljarða á síðasta ári.

Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti hluthafi Umbreytingar með 15% hlut og LSR fer með 14,3%. Fjárfestingarfélagið Snæból, í eigu Finns R. Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur, á 11,1%. Meðal annarra stærstu hluthafa sjóðsins eru Friðrik Jóhannsson, Erna Gísladóttir og Jón Þór Gunnarsson, eigendur BL bílaumboðsins, Ingimundur Sveinsson og Ómar Benediktsson.

Sjá einnig: Hreyfiafl í íslensku atvinnulífi

Alfa Framtak lauk nýlega fjármögnun á 15 milljarða króna framtakssjóðnum Umbreytingu II sem mun fjárfesta í óskráðum fyrirtækjum. Í tilkynningu Alfa Framtaks kom fram að töluverð umframeftirspurn hafi verið í fjármögnunarlotunni.