Geir H. Haarde, forsætisráðherra Íslands, gerði baráttuna gegn sárri fátækt í heiminum, mikilvægi sjálfbærrar þróunar og aðgerða vegna loftlagsbreytinga að umræðuefni sínu á ræðu sem hann flutti á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í gær. Þá lagði Geir einnig áherslu á virðingu fyrir mannréttindum og nefndi hann réttindi kvenna sérstaklega í því samhengi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Þar segir einnig að Geir hafi fjallað um nauðsyn umbóta innan Sameinuðu þjóðanna. Kvatti hann þannig til átaks í að auka þekkingu manna um tilgang og starssemi SÞ.

Geir gerði einnig grein fyrir framboði Íslands til setu í öryggisráðinu.