Við stofnuðum Umbúðagerðina árið 2014 og vorum fyrst um sinn eingöngu í að flytja inn umbúðir en ákváðum á síðasta ári að fjárfesta í tækjum og búnaði til að geta framleitt pappakassa fyrir innlendan markað. Því má segja að Umbúðagerðin standi svo sannarlega undir nafni í dag," segir Sigrún Edda Eðvarðsdóttir, framkvæmdastjóri Umbúðagerðarinnar, en fyrirtækið hóf í byrjun árs að framleiða pappakassa í sérútbúinni verksmiðju í Hafnarfirði.

Hún segir að með þessu hafi Umbúðagerðin viljað koma til móts við innlend fyrirtæki sem hafi undanfarið neyðst til að kaupa óþarflega mikið magn umbúða og binda þannig fjármagn og fermetra í stað þess að láta framleiða minna í einu og jafnt og þétt yfir árið eða eftir notkun hverju sinni. Þessi markaður hafi einskorðast við innflutning í miklu magni undanfarin ár eða allt frá því að Kassagerð Reykjavíkur hætti að framleiða pappakassa.

„Okkar nálgun er að geta afgreitt til okkar viðskiptavina jafnt og þétt, allt árið um kring. Við teljum mikilvægt að geta boðið innlendum fyrirtækjum þjónustu á þessum vettvangi á skemmri tíma en ella og bindum því vonir við að innlend fyrirtæki sjái sér hag í að nýta sér þjónustu okkar. Við bjóðum upp á sveigjanleika, kassa í áskrift og að sérframleiða kassa sem passa akkúrat undir vörur viðskiptavina hvort sem þá vantar til dæmis 100 eða 10.000 kassa."

Sigrún segir að vélbúnaður Umbúðagerðarinnar geti framleitt kassa af nær öllum stærðum og gerðum, bæði hefðbundna kassa sem og flóknari gerðir kassa, auk þess sem hægt sé að prenta á kassana. „Við höfum fengið fínar viðtökur frá viðskiptavinum og höfum verið að fjölga starfsfólki. Eftirspurnin eftir bylgjupappa hefur aldrei verið meiri vegna heimsfaraldursins. Hráefnisverð hefur því farið hækkandi sem má meðal annars rekja til aukinnar netverslunar sem hefur aukist gríðarlega í faraldrinum, en sú breyting er væntanlega komin til að vera."

Hagkvæmari innflutningur kveikjan

Umbúðagerðin er fjölskyldufyrirtæki sem er í eigu fyrrnefndrar Sigrúnar Eddu Eðvarðsdóttur og eiginmanns hennar, Eyþórs Páls Haukssonar. Félagið var stofnað árið 2014 og er systurfélag Prentmiðlunar, sem einnig er í eigu hjónanna.

„Fyrstu ár fyrirtækisins vorum við eingöngu í innflutningi á umbúðum og þá meira til að fá „bulkið" í innflutninginn en Prentmiðlun var stofnuð á því herrans ári 2008. Flutningur til landsins er kostnaðarsamur og hefur áhrif á verð til viðskiptavina, þannig að okkur þótti tilvalið að nýta tækifærið og mæta ákveðinni þörf sem við höfðum tekið eftir á markaðnum. Við vorum farin að fá mikið af fyrirspurnum frá viðskiptavinum og sáum tækifæri á markaðnum til að stíga skrefið til fulls og hefja framleiðslu á eigin kössum," segir Sigrún.

Prentmiðlun býður upp á ýmiss konar lausnir í prentun fyrir fyrirtæki og einstaklinga innanlands sem utan, og á fyrirtækið í samstarfi við prentfyrirtæki í Evrópu, Asíu og Ameríku. Eyþór lýsir fyrirtækinu sem nokkurs konar framenda þar sem allt val á hráefni eins og pappír og bókbandsefni fer fram. „Við höfum umsjón með móttöku verka, yfirförum prentskjöl, sjáum um samskipti við framleiðendur, prentum vottaðar litaprufur, höfum umsjón með prófarkaferli, framleiðslu, gæðaeftirliti og afgreiðslu vörunnar á Íslandi eða erlendis, ásamt tollafgreiðslu ef svo ber undir."

„Ég var búinn að ganga með þessa hugmynd í maganum um þó nokkurt skeið og ákvað loks í byrjun árs 2008, nokkrum mánuðum fyrir hrun, að slá til. Ég hef starfað innan prentgeirans alla mína starfstíð, eða frá sextán ára aldri á Ísafirði þar sem ég lærði prentun. Ég starfaði síðast hjá Odda áður en ég setti fyrirtækið á laggirnar," segir hann um árdaga Prentmiðlunar.

Eyþór segir að í dag sé nær óhætt að fullyrða að Prentmiðlun sé einn stærsti innflutningsaðili bóka og tímarita á Íslandi. „Við sinnum hinum ýmsu verkefnum og höfum m.a. mikið verið að sinna prentverkum sem krefjast mikillar vandvirkni. Við höfum aðkomu að um 200- 300 bókatitlum á hverju ári, auk þess sem við sjáum um prentun á fjölmörgum tímaritum. Þar að auki sinnum við nokkrum fjölda erlendra verkefna sem afgreidd eru erlendis."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .